Ferill 1017. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 2201  —  1017. mál.




Svar


félags- og vinnumarkaðsráðherra við fyrirspurn frá Bryndísi Haraldsdóttur um ráð, nefndir, stjórnir, starfshópa og stýrihópa.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hvað voru á árinu 2022 stofnaðar margar nýjar nefndir, stjórnir, ráð, stýrihópar eða starfshópar sem heyra undir ráðuneytið og hver er áætlaður kostnaður vegna þeirra?

    Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið skipaði árið 2022 fjórtán nefndir, stjórnir, ráð, stýrihópa og starfshópa, þar af þrjár hæfnisnefndir vegna skipana í embætti.
    Fallið hefur til kostnaður vegna þriggja hæfnisnefnda árið 2022 eins og hér segir:
          1.717.500 kr. vegna tímabundið skipaðrar hæfnisnefndar til að meta umsóknir um embætti forstjóra Gæða- og eftirlitsstofnunar velferðarmála, sbr. 1. tölul.
          2.160.000 kr. vegna tímabundið skipaðrar hæfnisnefndar til að meta umsóknir um embætti skrifstofustjóra skrifstofu félags- og lífeyrismála í félags- og vinnumarkaðsráðuneyti, sbr. 2. tölul.
          1.442.500 kr. vegna tímabundið skipaðrar hæfnisnefndar til að meta umsóknir um embætti forstjóra Tryggingastofnunar ríkisins, sbr. 3. tölul.
    Í samræmi við orðalag fyrirspurnar eru ekki taldar með lögbundnar eða ráðherraskipaðar nefndir sem stofnaðar voru fyrir tímamarkið en voru starfandi árið 2022 eða endurskipaðar á árinu enda teljast þær ekki nýjar í framangreindum skilningi. Þá er ekki tilgreindur kostnaður vegna starfa ráðherra, aðstoðarmanna og starfsmanna ráðuneytisins í tengslum við nefndarstörfin, enda fá þeir aðilar ekki greitt sérstaklega fyrir slíka vinnu. Eftirfarandi eru nýjar nefndir, stjórnir, ráð, stýrihópar eða starfshópar sem stofnaðir voru á árinu 2022:
     Hæfnisnefndir vegna skipana í embætti:
     1.      Hæfnisnefnd til að meta umsóknir um embætti forstjóra Gæða- og eftirlitsstofnunar velferðarmála.
     2.      Hæfnisnefnd til að meta umsóknir um embætti skrifstofustjóra skrifstofu félags- og lífeyrismála í félags- og vinnumarkaðsráðuneyti.
     3.      Hæfnisnefnd til að meta umsóknir um forstjóra Tryggingastofnunar ríkisins.
             Aðrar nefndir, starfshópar, vinnuhópar, stjórnir og ráð:
     4.      Starfshópur um afkomuöryggi, atvinnuþátttöku og húsnæðiskost eldra fólks.
     5.      Samhæfingarnefnd um velferð og virkni á vinnumarkaði.
     6.      Stýrihópur og sérfræðingateymi sem hefur það hlutverk að hafa yfirsýn yfir vinnu við endurskoðun á örorkulífeyriskerfinu.
     7.      Verkefnastjórn við heildarendurskoðun á þjónustu við eldra fólk.
     8.      Endurhæfingarráð.
     9.      Vinnuhópur um fullgildingu samþykktar Alþjóðavinnumálastofnunar nr. 190.
     10.      Samstarfshópur um heildarendurskoðun á framhaldsfræðslukerfinu og laga um framhaldsfræðslu, nr. 27/2010.
     11.      Starfshópur um aukin náms- og starfstækifæri fyrir fatlað fólk.
     12.      Verkefnastjórn um gerð landsáætlunar um innleiðingu á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.
     13.      Vinnuhópur um atvinnuréttindi útlendinga.
     14.      Stýrihópur um stefnu í málefnum innflytjenda og flóttafólks.